Tindarar í 2. sæti í 24 tíma áskorun á Zwift og viðurkenning fyrir besta stuðningsliðið

Fólk hefur mismunandi hugmyndir um hvernig notalegast og best er að verja helgarfríunum. Félagar í Tindi eru reyndar þekktir fyrir að fara aðrar leiðir en tíðkast svona almennt. Helgina 27.-28.11. ákváðu t.d. fjórir hressir drengir, þeir Arnþór Gústavsson, Guðfinnur Hilmarsson, Hallgrímur Arnarson og Thomas Skov Jensen, úr félaginu að leggja land undir fót (í mjög óeiginlegri merkingu), deila með sér einu æfingahjóli og taka þátt í 24 klst. áskorun og keppni á Zwift undir myllumerkinu #lezwift24h.

Atburðurinn var skipulagður af Ride Beyond Crew og Martijn FERNWEE.

En hvað gerðist á þessum 24 tímum?

Í grófum dráttum eftirfarandi: 

Frá kl. 11 á laugardegi til kl. 11 á sunnudegi var pedulunum snúið í 126.720 hringi, í það var eytt 19.874 kaloríum sem skilaði sér í 7.421 hæðarmetra og 795 km vegalengd. Það gerðist reyndar ýmislegt fleira en t.d. skellti einn þátttakenda sér á rómantískt „date-night“ með eiginkonunni á milli vakta svo eitthvað sé nefnt. Fullt af skemmtilegum gestum komu við  og reynt var að halda uppi góðu gagnaflæði og almennu fjöri á samfélagsmiðlum.

Það sem skiptir síðan kannski ekki minnstu máli er að þessir kátu piltar rembdust eins og rjúpan við staurinn og gáfu allt í þetta sem skilaði sér harðri baráttu um verðlaunasæti. Þeir enduðu svo nokkuð örugglega í 2. sæti af 14 liðum samtals. 

Auk þess var hinum kátu piltum  veitt sérstök viðurkenning fyrir besta stuðningslið þ.e. „Tiffosi Award“ for „Best Support Crew“. Stuðningsliðið var að sjálfsögðu aðrir Tindarar ekki síst hin skelegga Hrönn Jónsdóttir, GÁP sem lánaði glæsilega aðstöðu og Hreysti sem reyndi að sjá til þess að kolvetna- og steinefnastuðull þátttakenda væri í þokkalegu standi.

Niðurstaðan var - þegar öllu er á botninn hvolft -  almenn Tindslæti, góð samvinna, fyrirtaks skemmtun, mikill sviti, aðeins minna af blóði en engin tár og virkilega  flottur árangur! Vonandi verður þessi atburður eða annar sambærilegur endurtekinn á næsta ári og þá skorar Tindur á fleiri að taka þátt, bæði stelpur og stráka, innan og utan félags.