Íslandsmótið í Cyclocross

Myndir: Anton Gunnarsson

Það var brakandi sól og blíða sem tók á móti mótshöldurum og keppendum laugardaginn 30.október við frístundamiðstöðina í Gufunesi þegar Íslandsmótið í Cyclocrossi var haldið.

Þar var keppt í frábærlega vel útfærðri braut og samblanda af þessu tvennu; frábærri braut og veðri gat ekki boðið upp á annað en spennandi og skemmtilega keppni.

Elite KK störtuðu á slaginu 14:00 og voru 15 keppendur mættir á línuna. 

Keppnin fór hratt af stað eins og von er og vísa og teygðist vel á hópnum strax á fyrsta fjórðungi brautarinnar, tæknilegar S beygjur og bratt klifur voru fyrst á dagskránni og þeir sem komust klakklaust í gegnum það voru þá þegar í góðum málum fremst í brautinni. Eftir fyrsta hring virðist sem keppnin hafi verið búin að formast á einhvern hátt hvað varðar topp sætin en Jón G , Ingvar Ó og Dennis voru þá búnir að skapa töluvert forskot á næstu menn, en þar á eftir kom Óskar Ó og svo mætti segja að hópurinn hafi verið flest allur nokkrum sekúndum á eftir honum.

Strax á öðrum hring dettur Jón og Ingvar, Dennis og svo Óskar sigla örugglega framúr á meðan Jón verkaði drullu úr eyrunum en ákvað síðan að hætta keppni fljótlega eftir byltuna. 

Þegar fjórðungur var eftir af keppninni var staðan þannig að Ingvar var kominn með 20 sekúndna forskot á Dennis, og rúmlega 2 mínútna forskot á Óskar í þriðja sæti, og hann hélt því forskoti alveg fram að lokum keppninnar og endaði þetta því svo:

Myndir: Anton Gunnarsson

  1. Ingvar Ómarsson (Breiðablik) 00:53:37:53

  2. Dennis Van Eijk (Tind) 00: 53:53:10

  3. Óskar Ómarsson  (Tind) 00:57:30:35

Elite KVK hófu leik 8 mínútum eftir startið hjá Elite KK.

Mættar voru til leiks 6 elite konur á startlínunni, þar af engin önnur en neglan okkar, Bríet Kristý. Eins og í karlaflokki, fór keppnin í kvennaflokki hratt af stað og var ekkert gefið eftir. Bríet Kristý gaf allt í botn og fór fyrir hópnum fyrsta hringinn en Björg frá Breiðabliki var komin fremst í lok fyrsta hrings. Björg hélt síðan forystunni á seinni hring en Bríet Kristý, Elín Kolfinna og Natalía, báðar einnig frá Breiðabliki, voru fyrir aftan Björgu seinni hringinn. Á seinni hring þegar Björg var með sirka 10 sek. forskot á hópinn, flækti Bríet hjólið í öryggisborðanum. Við það myndaðist töluvert bil milli þeirra og Björg var með forystu á allan kvennahópinn.  Kvennahópurinn hélt áfram að gefa allt sitt í þessa keppni en á þriðja hring lenti Natalía í brasi með hjólið og dróst aftur úr eftir mjög gott start. Bríet og Elín Kolfinna fylgdust að eftir þetta þar til Bríet stakk Elínu Kolfinnu af. Björg hélt sínu forskoti og sigraði keppnina, Bríet kom þar á eftir og Elín Kolfinna lenti í þriðja sæti. 

Myndir: Anton Gunnarsson

  1. Björg Hákonardóttir (Breiðablik) 00:45:58.58

  2. Bríet Kristý Gunnarsdóttir (Tind) 00:46:47.14

  3. Elín Kolfinna Árnadóttir (Breiðablik) 00:48:02.42  

Það var ekki annað að heyra en að allir hefðu skemmt sér frábærlega þennan dag og CX klárlega grein innan hjólreiðanna sem Íslendingarnir kunna vel að meta, og svo ekki sé talað um þegar umgjörðin er jafn góð og HFR sá til að væri þessi 3 mót sem haldin voru í haust.

Hægt er nálgast önnur úrslit Íslandsmótsins á timataka.net

Myndir: Anton Gunnarsson

Myndir: Anton Gunnarsson