Sjö bikarar til Tindara

Lokahóf Hjólreiðasamband Íslands (HRÍ) var haldið laugardaginn 30. október síðastliðinn í sal ÍSÍ. Hófið er nokkurs konar sameiginleg uppskeruhátíð keppnishjólara á Íslandi þar sem veitt eru verðlaun fyrir bikarmeistaratitla auk þess sem tilkynnt er um val á hjólreiðafólki ársins hjá sambandinu.

Segja má að Tindsfólk hafi komið vel undan sumri því alls unnu sjö einstaklingar sem kepptu undir merkjum Tinds bikarmeistaratitla á tímabilinu. Bikarmeistararnir eru:

  • Margrét Arna Arnardóttir, bikarmeistari í tímatöku (TT), master kvk 40-49 ára

  • Björn Þór Guðmundsson, bikarmeistari í tímatöku (TT), master kk 40-49 ára

  • Arnþór Gústavsson, bikarmeistari í XCO, master kk 40-49 ára

  • Elín Björg Björnsdóttir, bikarmeistari í criterium, elite kvk

  • Bríet Kristý Gunnarsdóttir, bikarmeistari í götuhjólreiðum (RR), elite kvk

  • Óskar Ómarsson, bikarmeistari í criterium, elite kk

  • Hafsteinn Ægir Geirsson, bikarmeistari í götuhjólreiðum (RR), elite kk

Auk þessara sjö fékk Margrét Pálsdóttir einnig afhentan sinn bikar fyrir tímatöku en hún gekk nýlega í raðir Tinds frá Breiðabliki.

Hjólreiðafélagið Tindur er sannarlega stolt af sínu fólki sem á ekkert skilið nema þakklæti fyrir ósérhlífni og erfiði sem það hefur lagt á sig til að vinna til þessara verðlauna. Öll eru þau harðduglegt keppnisfólk en ekki síður frábærar fyrirmyndir og félagar.

Ingvar Ómarsson, Breiðabliki og Arna Sigríður Albertsdóttir voru síðan valin hjólreiðafólk ársins en Arna varð nýlega fyrst íslenskra hjólara til að keppa á ólympíuleikum þegar hún tók þátt í keppni í handahjólreiðum á ólympíuleikum fatlaðra í Tókýó. Tindur óskar þeim jafnframt til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu.


Hrönn Jónsdóttir