C flokkur - hjólaæfingar fyrir nýliða og þau sem vilja rifja upp gamla takta sumarið 2022

Götuhjólaæfingum Tinds í sumar verður skipt upp eftir getu og með því vonumst við til að fá sem flesta á æfingar hjá okkur. Við vinnum eftir nýja flokkakerfi HRÍ sem skiptir í A, B og C flokka. A og B flokkarnir eru til staðar á öllum okkar æfingum en við ætlum að keyra sérstakar C æfingar samhliða A og B í byrjun sumars.

C æfingarnar eru miðaðar að þeim sem ný í sportinu sem og þá sem vilja koma sér af stað aftur. Æfingarnar verða í 4 vikur frá og með þriðjudeginum 3. Maí á þriðjudögum kl 18:30 og fimmtudögum kl 20:00.

Markmið æfingana er að auka færni, getu og sjálfstraust á hjólinu og ná síðan í framhaldi að mæta á æfingar í B flokk. Við viljum nefnilega gera B flokkinn sem stærstann og þannig ætti hann að verða að leikvelli fyrir breiðan hóp Tindara þar sem allir geta fundið sér félaga á svipuðu getustigi og fengið þannig félagsskap og aðhald á æfingum.

Tindurum er velkomið og hvetjum við til þess að þeir bjóði vinum og vandamönnum á C æfingarnar án kostnaðar.

Að loknu 4. vikna tímabilinu verða C æfingar annan hvern þriðjudag og er þar tækifæri til að mæta og fá handleiðslu inn í sportið. Ef mætt er þegar ekki er C flokka æfing er ekki hægt að tryggja að þjálfari nái að veita óvönum þá þjónustu sem þarf.