Tindur og Vörður tryggingar skrifa undir samstarfssamning

Vörður tryggingar og Tindur hjólreiðafélag hafa skrifað undir samstarfssamning og verður Vörður aðalstyrktaraðili hjólreiðafélagsins næstu þrjú árin. Markmiðið er að stuðla að bættri hjólreiðamenningu á Íslandi og að efla hjólreiðar sem keppnisíþrótt. Merki Varðar mun prýða hjólreiðafatnað félagsmanna Tinds sem notaður verður til æfinga og í keppnum á samningstímabilinu.

Hjólreiðafélagið Tindur var stofnað í febrúar 2011. Tilgangur félagsins er að efla og stækka íslenska reiðhjólamenningu, auka keppnishald og bæta ímynd keppnisíþrótta í hjólreiðum. Félagið heldur úti öflugu æfingastarfi og hjólreiðakeppnum og eru æfingar þess öllum opnar. Vörður vill taka þátt í ört vaxandi hjólreiðamenningu á Íslandi en það fellur vel að áherslum félagsins um samfélagslega ábyrgð og bætta lýðheilsu. Auk þess að styrkja hjólreiðafélagið Tind er Vörður þátttakandi í verkefni um bætta hjólreiðamenningu sem ber heitið Hjólafærni en því er ætlað að stuðla að auknu öryggi hjólreiðamanna í umferðinni. „Umburðarlyndi, virðing og tillitsemi eru gildi sem allir þurfa að tileinka sér í umferðinni, hvort sem við erum gangandi, akandi eða á reiðhjóli. Stuðningur við eflingu reiðhjólamenningar á Íslandi og verkefni tengd öryggi reiðhjólafólks fellur vel að starfssviði og stefnu Varðar. Við horfum upp á mikla fjölgun slysa sem tengjast auknum hjólreiðum á vetri sem sumri og viljum við stuðla að aukinni hæfni og öryggi reiðhjólafólks,“ segir Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar.

Oskar Omarsson