Reykjanes Classic - Tindur KK

Það fylgir alltaf mikil stemning fyrstu keppni tímabilsins og hvað þá þegar það er líka fyrsta keppnin hjá nýju liði.




Í vetur settust nokkrir hausar saman niður yfir sérlega óáfengum drykkjum og ræddu það hvort að þeir gætu ekki fundið leið til að hjóla hratt saman næstu árin í sömu treyjunum og undir sömu liðsmerkjunum. Niðurstaðan úr þessum vangaveltum var sú að stofna keppnislið undir merkjum Tinds og safna saman þeim sem hafa verið að keppa undir merkjum félagsins í fremstu röð undanfarin ár.




Fyrir hönd þessa liðs voru mættir á ráslínuna á Reykjanesinu Eyjólfur Guðgeirsson, Jón Geir Friðbjörnsson, Jón Arnar Óskarsson, Dennis Van Eijk, Thomas Skov, og Ragnar Adolf Árnason. Rúnar Örn Ágústsson var í liðsstjórahlutverki úr einum fylgdarbíl og Tinds goðsagnirnar (með meiru) Róbert Lee og Hallgrímur Arnarson í öðrum fylgdarbíl vopnaðir gelum, brúsum og hvers kyns hvatningarorðum og peppum.




Reykjanesið í Maí er alltaf jafn veðurfarslega hresst og gefur skít í allar væntingar þess að sumarið sé á næsta leyti. Upphitunin fór fram í þægilegum 7 gráðum og góðri rigningu (sem þó stytti upp fyrir ræsingu).




Upplagið hjá okkur var mjög einfalt; keyra að Festarfjalli og byrja strax þétta keyrslu þar upp til að reyna að þynna hópinn eins og við gætum og enda með eins marga af okkur og við gætum hinu megin við fjallið. Þegar niður var komið taldi fremsti hópur 9 hjólara og við þar með 4 (Eyjó, Dennis, Jón Geir og Raggi) - sem er frábær staða. Það var þó lítið um tilburði alla leið í Þorlákshöfn enda vindurinn grimmur og ýmist frá hlið eða beint í smettið á hópnum og landslagið býður ekki beint uppá einhverjar krúsídúllur í árásum. Þessi 9 manna hópur kom saman að snúningspunkti við Þorlákshöfn og þar fékk hópurinn að upplifa það hvernig veðhlaupahundum líður þegar héranum er skotið af stað þegar Ingvar gerði árás beint inn í meðvindinn. Eyjó lokaði bilinu yfir til hans en Dennis, Raggi og Jón Geir misstu af hópnum. Seinna á leiðinni að Krýsuvík splittaðist fremsti hópur aftur og Ingvar, Haffi, og Þorsteinn mynduðu fremsta hóp með Eyjó, Gumma Sveins og Bjarna Garðar á eftir þeim, og Dennis og Raggi einhversstaðar þar fyrir aftan. Eyjó keyrði með Kjúburunum inn og út Krýsuvík, og gerði svo árás á þá yfir Festarfjallið á leiðinni tilbaka og kláraði solo í 4. Sæti. Raggi og Dennis enduðu í 7. Og 8. Sæti, Thomas í 9. Jón Arnar í 10. Og Jón Geir DNF eftir að hafa gefið líkama og sál í að reyna að loka bilinu með Ragga og Dennis yfir í Kjúbarana á leiðinni tilbaka frá Þorlákshöfn.




Skemmtileg byrjun á tímabilinu. Fullt af jákvæðum punktum sem við getum tekið úr þessu og eins fullt af hlutum sem við getum unnið í og bætt. Næsta verkefni verður í sælunni fyrir norðan á Mývatni undir lok mánaðar og mikil spenna í hópnum að takast á við það verkefni.