Reykjanes Classic - Tindur KVK

Kvennaarmur keppnisliðs Tinds kom saman um svipað leyti og karlaliðið var setti sína hausa saman. Til að byrja með samanstóð það af Bríeti Kristý Gunnarsdóttur, Elínu Björgu Björnsdóttur og Ágústu Eddu Björnsdóttur (nei, ekki systur!). En það þótti ekki nóg að vera bara með 3 blondínur í liðinu og því var ákveðið að sækja eina ljóshærða orkusprengju vestur á firði - Katrínu Pálsdóttur - sem byrjaði liðsferilinn á einu stykki heimsmeistaratitli í tvíþraut takk fyrir!!




Elín ákvað hins vegar að byrja liðsferilinn á downhill byltu í Skotlandi sem kostaði stokkbólginn og slasaðan ökkla, spelkur frá Össuri og hækjur. Needless to say þá er búið að bæta inn reglu í liðshandbókina sem bannar allar downhill kúnstir frá janúar til október á ári hverju! En fall er fararheill og Elín verður mætt á götuhjólið áður en Thomas getur sagt strekkt keðja!




Bríet, Ágústa og Kata voru því mættar á ráslínu í nýju kitti, auka base layer og regnheldum skóhlífum (og nei þær komu ekki í veg fyrir polla í skónum þegar komið var í mark) en Elín var í fylgdarbílnum, með auka brúsa, næringu, pepp og tímamælingar.





Brautin í kvennaflokknum var 90km löng en strax í Festarfjalli (eða eftir 3 km keppni) keyrði Hafdís (Íslands-, og bikarmeistari) upp hraðann og Ágústa og Silja Jóhannesdóttir (Íslandsmeistari 2021) voru næstar henni þegar komið var upp á topp. Eftir um 10km samvinnu náðu þær Hafdísi og þessar þrjár hjóluðu saman næstu 40 kílómetrana. Fyrir aftan voru allar hinar í kvennaflokknum í einum hóp.
Eftir snúningspunkt á Suðurstrandaveginum var fljótlega beygt inn að Kleifarvatni þar sem nokkrar stuttar en brattar orkusugu brekkur er að finna. Í einni þeirra missti Ágústa Hafdísi og Silju frá sér og hjólaði ein síðustu 40 kílómetra keppninnar. Kata var í tveggja manna hóp þar fyrir aftan ásamt Kristínu Eddu (HFR) en þær náðu að slíta sig frá hópnum í meðvindinum eftir snúningspunktinn. Bríet var í hóp þar fyrir aftan en hún hafði misreiknað fjarlægð að snúningspunkti og var illa staðsett þegar að honum kom (skeit illa á sig voru hennar orð!). Jón Arnar, þú tekur næturvaktirnar fyrir næstu keppni, við þurfum Bríeti með fullan fókus! Hún náði þó fljótt tveimur fyrir framan sig og hjólaði meira og minna með þeim það sem eftir var keppni.






En svo fór að Ágústa náði 3. sæti á eftir Hafdísi og Silju, Kata var í 5.sæti og Bríet í 8.sæti. 






Við hlökkum til næstu keppna og vitum að liðið á bara eftir að styrkjast, Elín mun jafna sig af meiðslunum og koma inn af krafti, Bríet babymama er óðum að nálgast sitt fyrra form, Kata er að slípast til í liðið og götuhjólakeppnapælingar og Ágústa ætlar að reyna að kreista út nokkur wött í viðbót í stuttu bröttu brekkunum 😛