Hjólreiðafólk ársins hjá Tind

Tindur hjólreiðafélag tilnefnir með stolti þau Hafstein Ægi Geirsson og Maríu Ögn Guðmundsdóttur sem hjólreiðafólk ársins árið 2022 hjá Tind. Með þessari tilnefningu verða þau einnig tilnefnd til Hjólreiðasambands Íslands og verða í kjörinu sem Hjólreiðafólk ársins innan sambandsins.

Kosnining um hjólreiðafólk ársins ásamt Tindurum ársins fór fram dagana 17. til 25 október með félagsmanna.

Hafsteinn Ægir - Hjólreiðamaður ársins hjá Tind

Hafsteinn Ægir hefur í gegnum árin verið okkar öflugasti hjólreiðamaður og skiptir þá engu í hvaða grein hjólreiða litið er til, hann hefur verið í fararbroddi í þeim öllum. Hafsteinn Ægir var öflugur í keppnum í ár og sást hann á start línunni tilbúinn að láta til sín taka og má nefna að hann er á palli í þremur íslandsmeistaramótum ársins. Hafsteinn hefur verið hluti af liði Arnarins seinustu árin og hefur nálgast keppnir með því markmiði að hafa gaman, hjálpa liðsfélögum sínum og ef þannig liggur á honum sigra keppnir. Malarhjólreiðar eru ein af hans ástríðum og hefur hann náð frábærum árangri þar, bæði heima og erlendis. Hafsteinn Ægir starfar hjá Lauf cycling og er gott að vita að hans sérþekking og reynsla sé að skila sér til íslenskrar frumkvöðlastarfsemi. Drifkraftur Hafsteins og ástríða fyrir hjólreiðum er eftirtektarverð og öllum sem koma að sportinu fyrirmynd, ef við bara ættum fleiri eintök af Hafsteini þá væri gaman. Hafsteinn Ægir er tilnefning Tinds til Hjólreiðamanns ársins árið 2022. Takk Hafsteinn…

María Ögn - Hjólreiðakona ársins hjá Tind

María Ögn náði þeim frábæra árangri í ár að verða fyrst íslenskra kvenna til að gerast atvinnuhjólreiðamaður. María er drifin áfram af ódrepandi eldmóði fyrir hjólreiðum og hefur í gegnum árin keppt af krafti, kennt almenningi og verið öflugur talsmaður hjólreiðasamfélagsins á Íslandi. Í ár skilaði vinnan hennar sér í því að hún fékk atvinnumannasamning hjá franska Café du Cyclist liðinu sem keppir í malarhjólreiðum. María Ögn var því mikið erlendis í ár að keppa á alþjóðlegum mótum með liði sínu. Árangur hennar í keppnum erlendis varð til þess að hún vann sér inn sæti á fyrsta heimsmeistaramótinu í malarhjólreiðum sem haldið var á Ítalíu nú í október. Það að við eigum fulltrúa á fyrsta heimsmeistaramótinu í malarhjólreiðum segir margt um okkur sem þjóð og sýnir okkur hvað við getum náð langt ef virkjum þann kraft sem hjólreiðasamfélagið hefur að bera. María Ögn er lifandi dæmi um það að ef ástríðan og drifkrafturinn er nægur þá eru allir vegir færir og við ættum að taka hana til fyrirmyndar. María Ögn er tilnefning Tinds til hjólreiðakonu ársins árið 2022, takk María….

Á lokahófi Tinds þann 5. nóvember næstkomandi munum við tilkynna nýliða ársins, Tindara ársins og efnislegast hjólreiðafólk ársins. Sama dag verður einnig ársfundur Tinds.

Tindur Hjólreiðafélag